Klarna, sænskur banki sem býður upp á margs konar greiðslumiðlanir og -þjónustu í gegnum netið, er metið á 11 milljarða dollara í kjölfar 650 milljóna dollara fjárfestingar fjárfestahóps sem inniheldur fjárfestingafélagið Silver Lake, ríkisfjárfestingafélagið GIC frá Singapúr, eignastýringarrisann BlackRock og eignastýringarfélagið HMI Capital. FT greinir frá þessu.

Hyggst Klarna nýta fjármögnunina til frekari vaxtar í Bandaríkjunum og er talið líklegt að félagið verði skráð á markað vestanhafs áður en langt um líður.

Að sögn Sebastian Siemiatkowski, forstjóra og eins stofnenda bankans, er greiðsluþjónustuiðnaðurinn „draumur frumkvöðulsins“ þar sem að iðnaðurinn byggi á úreldri tækni, auk þess sem erfitt sé fyrir ný fyrirtæki að hefja innreið inn á greiðsluþjónustumarkaðinn.