Særúnu Ósk Pálmadóttur, samskiptastjóra Haga, var sl. mánudag sagt upp störfum hjá fyrirtækinu um leið og staða hennar var lögð niður. Hún segir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter . Þar með er Særún sú fyrsta en jafnframt sú síðasta til að gegna umræddri stöðu hjá Högum.

Í færslunni segir Særún að á meðan allir séu að fá nýja vinnu þessa dagana, sé hennar starf lagt niður. „Fyrsti og síðasti samskiptastjóri Haga, toppaðu það! En jæja, nú get ég allavega verslað í Krónunni án samviskubits.“

Í gær var tilkynnt um ráðningu tveggja nýrra stjórnenda hjá Högum og var Sesselía Birgisdóttir, sem tók við nýrri stöðu forstöðumanns nýsköpunar og markaðsmála, þar á meðal. Umræddar skipulagsbreytingar fela m.a. í sér að verkefni samskiptastjóra munu færast yfir til Sesselíu.

Í samtali við Vísi segir Særún að hún hafi látið af störfum hjá fyrirtækinu um leið og tilkynnt var um uppsögn hennar á sl. mánudag. Hún hafi fengið þær skýringarnar á uppsögninni að hún væri tilkomin vegna skipulagsbreytinga sem Finnur Oddsson, forstjóri Haga, standi á bakvið.

Segir hún jafnframt í samtalinu við Vísi að uppsögnin hafi komið henni á óvart en hún líti þó björtum augum til framtíðar.