*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Innlent 14. júlí 2016 08:12

Sæstrengi fylgja hækkanir til heimila

Ekki þarf tvær Kárahnjúkavirkjanir til að sæstrengur til Bretlands yrði hagkvæmur en orkuverð myndi hækka.

Ritstjórn
Kristinn Magnússon

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar segir að ekki þurfi tvær Kárahnjúkavirkjanir til að hagkvæmt sé að byggja sæstreng til Bretlands líkt og sagt var frá í fréttum í gær. Segir Hörður þá ályktun ekki byggja á niðurstöðum skýrslu Kviku og ráðgjafafyrirtækisins PÖYRY.

Jafngildi Kárahnjúkavirkjunar með bættri nýtingu

„Samkvæmt miðsviðsmynd skýrslunnar þarf um 1500 megavött til. Stór hluti þess afls - Um það bil ein Kárahnjúkavirkjun - myndi koma úr bættri nýtingu. Umhverfisáhrif þess yrðu engin. Þá myndu líka koma til smærri virkjanir í vatnsafli, vindi og jarðvarma sem myndu selja inn á kerfið, en væri að öðrum kosti ekki hagkvæmt að gera. Í þriðja lagi væri um hefðbundna virkjanakosti að ræða og úr þeim þyrftu að koma um 250 megavött. Það er álíka stórt og Hrauneyjafossvirkjun, en mun minna en Kárahnjúkavirkjun. Að okkar mati er því ekki rétt að leggja þetta svona upp eins og gert var,“ segir Hörður í viðtali við Kjarnann.

Hækkanir á raforkuverði til íslenskra heimila og fyrirtækja

Segir Hörður skýrsluna svara mörgum spurningum, að þar komi meðal annars fram að þjóðhagsleg arðsemi yrði 50 til 60 milljarðar króna sem myndi skiptast til jafns milli Íslands og Bretlands. Í þeim tölum sé tekið tillit til mjög viðunandi arðsemi á allar framkvæmdir í báðum löndum og væntanlegra hækkana á rafmagnsverði til fyrirtækja og heimila.

„Okkar grund­völlur var að fá það staðfest að Bretar væru tilbúnir til að nýta sér styrkjakerfið sem þeir hafa fyrir orkuvinnslu fyrir verkefnið, en Bretar eru þegar að greiða með allri orku sem er til í Bretlandi. Það fékkst staðfest.“