*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 12. júlí 2016 15:05

Sæstrengur ekki arðbær án aðstoðar

Sæstrengur milli Íslands og Bretlands nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum.

Ólafur Heiðar Helgason
Aðsend mynd

Sæstrengur til Bretlands nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum. Verkefnið er hins vegar þjóðhagslega hagkvæmt samkvæmt flestum sviðsmyndum. Strengurinn kallar á fjárfestingar í raforkuvinnslu upp á um 1.500 megavött af nýju uppsettu afli.

Þetta eru á meðal niðurstaðna umfangsmikillar kostnaðar- og ábatagreiningar Kviku og Pöyry sem kynnt var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.

Ekki endilega arðbært fyrir Bretland

Samkvæmt forsendum greiningarinnar er verkefnið þjóðhagslega hagkvæmt samkvæmt tilteknum sviðsmyndum. Það er talið hafa nettó ábata fyrir Ísland sem nemur 0,9-2,1 milljörðum evra á tímabilinu 2025-2050, eða jafnvirði um 120-290 milljörðum króna á núverandi gengi.

Verkefnið hefur hins vegar ekki nettó ábata fyrir Bretland samkvæmt öllum sviðsmyndum. Þá vekur athygli að samkvæmt flestum sviðsmyndum er verkefnið ekki arðbært fyrir eigendur sæstrengsins sjálfs nema hagvöxtur verði mikill og verð jarðefnaeldsneytis hátt.

Kallar á stuðning stjórnvalda

Samkvæmt miðsviðsmynd er ábati eigenda sæstrengsins neikvæður um 1 milljarð evra, ef gert er ráð fyrir að ávöxtunarkrafa eigenda strengsins sé 7,9 prósent. Að því er segir í skýrslunni kallar verkefnið því á stuðning frá breskum stjórnvöldum, til dæmis í formi mismunasamnings.

Heildarniðurstaðan er sú að samfélagslegur ábati verkefnisins, sé tekið tillit til ábata Íslands, Bretlands og eigenda sæstrengsins, er jákvæður í flestum sviðsmyndum en neikvæður í sumum. Í lágsviðsmynd greiningarinnar, þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti og lágu verði á jarðefnaeldsneyti, skilar verkefnið neikvæðum nettóábata sem nemur 0,3 milljörðum evra á tímabilinu.

Mikil tilfærsla auðs

1,6 milljarðar evra, jafnvirði 217 milljarða króna miðað við núverandi gengi, færast frá notendum raforku á Íslandi til framleiðenda orku hér á landi árin 2025-2050 miðað við forsendur greiningarinnar. Að jafnaði eru þetta um 9 milljarðar króna á ári. Stóriðjan legði mest til þessa tilflutnings auðs enda stendur hún að baki 80% allrar eftirspurnar eftir raforku hér á landi.

Í heildina er fjárfestingarkostnaður verkefnisins, með strengjum og umbreytistöðvum, flutningi innanlands á Íslandi og þörf fyrir frekari fjárfestingu í orkuvinnslu hér á landi áætlaður um 800 milljarðar króna. Áætlað er að verkefnið hafi í för með sér hækkun á raforkuverði og mun raforkureikningur heimila landsins hækka um 355-710 krónur á mánuði án mótvægisaðgerða. Aðrar atvinnugreinar en stóriðja þurfa að greiða 2,1-4,2 milljörðum króna meira fyrir raforku á ári verði af sæstreng.

Allir kostir í nýtingarflokki nýttir

Í skýrslu Kviku er bent á að möguleikar til aukinnar orkuvinnslu á Íslandi séu takmarkaðir bæði af náttúrunnar hendi og ákvörðunum Alþingis. Í greiningunni eru notuð orkuvinnsluverkefni sem þegar eru í nýtingarflokki en einnig vindorka og smávirkjanir.

Verkefnið gæti uppfyllt um 2% af raforkunotkun í Bretlandi og myndi minnka losun koltvísýrings um 1-2,9 milljónir tonna á ári. Til samanburðar var öll losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2010 um 4,5 milljónir tonna. Hins vegar hefðu sæstrengurinn, flutningsmannvirki og nýjar virkjanir einnig áhrif á umhverfi sitt.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Stikkorð: Sæstrengur