Í kjölfar þess að bresk stjórnvöld stefna á kolaverum sínum í síðasta lagi árið 2025, þurfa Bretar að fylla upp í 14 GW raforkugat, sem getur orðið allt að 35 GW ef horfið er til aukinnar eftirspurnar á næstu árum.

Því þurfi að nást samkomulag milli Íslands og Bretlands ekki síðar en á næsta ári að mati Mathew Truell, einum af forsvarsmönnum verkefnis um sæstrenginn sem gengur undir enska heitinu Atlantic super connection.

Hefur fyrirtækið undanfarin ár unnið að ýmis konar greiningum og skoðun á möguleikum á lagningu sæstrengsins að því er Morgunblaðið greinir frá.

Tilbúnir að greiða hærra verð

Vegna þess að orkan sem Bretar myndu þannig geta keypt frá Íslandi væri umhverfisvæn, eru þeir tilbúnir að greiða álag á orkuverðið, og segir hann að það yrði talsvert hærra verð en stóriðjan hér á landi greiðir í dag, en hún gleypir um 80% af allri raforku framleiddri í landinu.

Um það sé þó samið fyrir hvert verkefni fyrir sig, en öfugt við stóriðjuna myndi sæstrengur ekki skapa nein störf í landinu.

Leiði ekki til hærra verðs

Einnig segist hann ekki sjá að langtímasamningur um sölu raforku í gegnum sæstreng ætti frekar að valda verðhækkunum hér á landi heldur en sala til stóriðjunnar.

Gengur það þvert á niðurstöu skýrslu Kviku og Pöyry sem sagði sæstrenginn leiða til allt að 5-10% hærra verðs til heimila, eða sem næmi 350-710 krónum mánaðarlega á hvert heimili.

Sammála um að bætt nýting skili einni Kárahnjúkavirkjun

Einnig er Truell ósammála skýrsluhöfundum um hve mikla aukna raforkuframleiðsluþörf þyrfti í landinu til að annast breska eftirspurn.

Er hann þar sammála Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, sem sagði að hægt væri að fá um 690 MW, eða sem samsvarar einni Kárahnjúkavirkjun, með bættri nýtingu í núverandi kerfi.