Lagning sæstrengs til Evrópu kallar á styrkingu íslenska raforkuflutningskerfisins en hversu miklar þær þurfa að vera ræðst að verulegu leiti af landtökustað strengsins og öryggi tengingarinnar. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vefsíðu Landsnets.

Þar segir að athuganir Landsnets bendi til þess að umræddar styrkingar, umfram framtíðartillögur fyrirtækisins um styrkingu flutningakerfisins, séu minni ef strengurinn væri tekinn á land á Suðurlandi heldur en ef landtaka yrði á Austfjörðum.

Í fréttinni kemur fram að töluverð vinna hafi verið lögð í það undanfarin misseri að kanna fýsileika þess að flytja raforku frá Íslandi til Evrópu um sæstreng. Þáttur Landsnets í þeirri vinnu hafi að mestu snúið að því að greina stóru myndina innanlands, þ.e. að bera saman nokkra kosti með tilliti til til uppbyggingarþarfar flutningskerfisins.

Tvær tengingar þurfi til

Niðurstöður þeirra athugana eru kynntar í sérstökum þemakafla í tillögu að kerfisáætlun 2015-2024, sem nú er til kynningar hjá Landsneti og fjallar um áætlaða þróun notkunar og framleiðslu raforku tengdri raforkuflutningskerfinu og uppbyggingu sem ráðgerð er á næstu 10 árum.

Í áætluninni kemur meðal annars fram að krafa um hátt afhendingaröryggi til sæstrengsins, þ.e. að hægt sé að afhenda það afl sem óskað er eftir þrátt fyrir að ein lína fari úr rekstri, kalli á tvær tengingar fyrir afhendingarstað strengsins. Nákvæm útfærsla á tengingum strengsins við flutningskerfið hafi hins vegar ekki verið skoðuð á þessu stigi né heldur tenging nýrra virkjana sem kunni að verða byggðar vegna hans.

Hægt er að lesa nánar um málið á vefsíðu Landsnets .