Ketill Sigurjónsson, ráðgjafi í orkumálum, segir eitt hafa verið lítið rætt í umræðu um þriðja orkupakkann, sem mætti hafa í huga.

„Samkvæmt greiningu norsku orkustofnunarinnar (NVA) hafa sæstrengir og aðrar raforkutengingar Norðmanna við nágrannaríkin stuðlað að lægra raforkuverði til almennings en ella hefði orðið,“ segir Ketill í grein á Medium og segir að með sama hætti geti sæstrengur milli Íslands og Evrópu haldið aftur af hækkun raforkuverðs.

Segir Ketill að staðan á raforkumarkaðnum á Íslandi í dag ekki ósvipaða þeirri sem var í Noregi áður en tengingum þar til nágrannalandanna var fjölgað.

„Þ.e. mjög lítið af umframorku til staðar og því mátti lítið út af bera til að raforkuverð ryki upp. Hér á landi birtist þessi staða í því að varla er nóg af raforku til staðar til að mæta aukinni eftirspurn t.d. frá gagnaverum,“ segir Ketill og vísar í álit Orkuspárnefndar um nauðsyn þess að byggja fleiri virkjanir á komandi ári svo ekki myndist hér orkuskortur.

Raforkuverð til stóriðju hækki en hógværara verð til almennings

Segir hann að raforkustrengur myndi stuðla að hógværara raforkuverði fyrir almenning á sama tíma og raforkuverð til stóriðju myndi færast hraðar nær því sem almenni raforkumarkaðurinn greiði, líkt og hafi gerst í Noregi. Það myndi auka arðsemi í íslenskri raforkuframleiðslu, sem sé fyrst og fremst í höndum opinberu fyrirtækjanna Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.

„Það er sem sagt líklegt að sæstrengur, ef rétt yrði að slíku verkefni staðið, myndi bæta arðsemi Landsvirkjunar og Orkuveitunnar. Og þar með gæfist færi til að auka arðgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga. Sem þýðir tækifæri til skattalækkana og/eða aukinnar almannaþjónustu.“

Því segir Ketill litla ástæðu til að óttast að sæstrengur muni leiða til hækkana á raforkuverði til almennra notenda hér, þó vissulega sé mikilvægt að íslensk stjórnvöld tryggi íslenska hagsmuni.

„Og þannig gæti sæstrengur skilað Íslandi verulegum ávinningi. Niðurstaðan er sem sagt sú að þriðji orkupakkinn er engin ógn í þessu sambandi. Og sæstrengur er sjálfstæð ákvörðun sem þjóðin ræður með því hverja hún velur á Alþingi.“