Sæstrengur verður lagður frá Íslandi í framtíðinni þótt það gerist hugsanlega ekki á allra næstu árum. En staðan í orkumálum Evrópu, og þau óleystu vandamál sem Bretar standa frammi fyrir, hafa í grundvallaratriðum breytt tækifærinu frá því sem það var fyrir 10 árum þegar síðast var hugað að sæstreng. Ennfremur eru vænlegar horfur á að skipting á áhættu og ávinningi geti í þetta skiptið orðið Íslendingum mjög í hag. Er þetta mat Björgvins Skúla Sigurðssonar, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar. Grein eftir hann birtist í nýjasta tölublaði Þjóðmála.

Björgvin Skúli Sigurðsson.
Björgvin Skúli Sigurðsson.

Þar bendir hann á að Íslendingar flytja nú þegar út 80% af þeirri raforku sem unnin er í landinu. „Stærstur hluti útflutningsins fer fram í formi áls en kísiljárn og aflþynnur eru önnur mikilvæg dæmi. Nýjasta viðbótin er gagnaver þar sem rafmagnið er flutt út í formi gagnaflutnings um sæstrengi — í þessu tilfelli ljósleiðarasæstrengi. Rafmagnssæstrengur væri að þessu leyti leið til að auka útflutningsverðmæti af auðlindum þjóðarinnar með aðgengi að nýjum markaði á sama hátt og þegar sérunnið íslenskt sjávarfang kemst inn á nýjan fiskmarkað erlendis.“

Hann segir að enn sé of snemmt að segja til um hvort sæstrengur sé hagkvæmur kostur fyrir Ísland. Umfang virkjanaframkvæmda, breytingar á flutningskerfi innanlands og áhrif á íslenskt efnahagslíf og náttúru þurfi að kanna frekar.