Í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins ræðir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins raforkuþörf og orkuskipti. Hún segir ljóst að búa þurfi til meiri raforku hér á landi ef markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi eigi að nást. Á dögunum stóðu samtökin, ásamt Landsvirkjun, Samorku og EFLU, fyrir opnun á nýjum upplýsingavef, orkuskipti.is.   Á vefnum má nálgast upplýsingar um orkunotkun Íslands, orkuskiptin og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum.

Lagning raforkusæstrengs frá Íslandi yfir á meginland Evrópu er umræða sem hefur reglulega skotið upp kollinum síðustu ár. Nú þegar raforkuverð er í hæstu hæðum í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu má velta vöngum yfir þeim tekjum sem sæstrengur milli Íslands og meginlandsins myndi skila. Að sama skapi má þó velta vöngum yfir hvort íslenskir neytendur væru þá að greiða jafn hátt verð fyrir raforkuna og íbúar á meginlandinu.

Sigríður Mogensen.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sigríður segir afstöðu SI til sæstrengs skýra. Samtökin séu ekki hlynnt þeim hugmyndum að flytja orku beint úr landinu, heldur vilji þau frekar að orkan sé nýtt til verðmætasköpunar innanlands. „Þannig fáum við miklu meira út úr orkunni, sköpum störf og útflutningstekjur, sem byggir á því að nýta raforku til uppbyggingar í iðnaði. Það er erfitt að segja hver staðan væri núna ef við hefðum lagt sæstreng. En það er ljóst að við munum þurfa á allri innlendri orku að halda í þeim orkuskiptum sem framundan eru, og meira til.“

Hún segir sæstreng fullkomlega óraunhæfan í ljósi þess að það þurfi að auka raforkuframleiðslu um 16 teravattstundir á ári hér á landi eingöngu til að standa undir orkuskiptum, þ.e.a.s. skipta út olíu. Í dag nemur heildarraforkuframleiðsla á ársgrundvelli um 20 teravattstundum. „Þá á eftir að horfa til framtíðaruppbyggingar í atvinnulífi, fólksfjölgunar,  styðja við hagvöxt og útflutning til framtíðar. Þar bætist við enn meiri raforkuþörf. Að það verði eitthvað umframframboð af raforku til að flytja út til annarra ríkja finnst mér þar af leiðandi mjög ólíklegt. Hins vegar eru í gangi spennandi þróunarverkefni á framleiðslu vetnis og rafeldsneytis. Það er mun skynsamlegra að horfa til slíkra verkefna en sæstrengs, því þar væri verið að byggja upp nýjan atvinnuveg á Íslandi með tilheyrandi störfum og verðmætasköpun.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.