Ísland hefur á undanförnum árum komist á kortið sem álitlegur staður fyrirgagnaversiðnað. Hér á landi eru rekin þrjú sérhæfð gagnaver, tvö á vegum Advania og eitt á vegum Verne Global. „Þess fyrir utan er nokkur fjöldi aðila sem hefur hafið prófanir með það að markmiði að ákveða frekari uppbyggingu hérlendis á næstu misserum,“ segir Magnús Þór Gylfason, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Borga meira fyrir raforku en stóriðja

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er heildarorkunotkun gagnavera nú um 17 megavött. Þar af er orkunotkun gagnavers Advania að Fitjum um 8 megavött en Thor Datacenter um 2 megavött. Gagnaver Verne Global að Ásbrú notar um 7 megavött.

Gagnaverin kaupa orku á talsvert hærra verði heldur en hún er seld til stóriðju. „Við höfum auglýst raforkuverð upp á 43 Bandaríkjadali á megavattstund sem gagnaver virðast áhugasöm um að tryggja sér aðgang að,“ segir Magnús Þór.

Miðað við upplýsingar í síðustu ársskýrslu Landsvirkjunar er meðaltalsverð til stóriðju á borð við álver og járnblendiverksmiðjur 25,8 dalir á megavattstund og því ljóst að talsverður munur er á raforkuverði til stóriðju annars vegar og gagnaversiðnaðar hins vegar. „Auðvitað vildum við borga lægra verð en þetta er bara það sem er í boði,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, formaður Samtaka gagnavera á Íslandi.

„Það er hins vegar ekki endanlegt verð komið til okkar. Við þurfum að borga fyrir dreifingu og niðurspenningu og við þurfum að kaupa það af dreifiveitunum, eins og HS veitum. Það er mjög dýr verðskrá. Við borgum bara svipað verð og heimilisnotendur,“ segir Eyjólfur.

Sæstengurinn mikilvægur

Spurður hvort lagning nýs sæstrengs skipti máli fyrir gagnaversiðnað á Íslandi segir Eyjólfur: „Hann skiptir heilmiklu máli. Það væri miklu betra fyrir ísland að vera með bæði ódýrari tengingar til útlanda og betri tengingar, sérstaklega til Bandaríkjanna. Okkur gengur alveg ágætlega í gagnaversiðnaðinum þrátt fyrir það.“

Núverandi fyrirkomulag gerir það hins vegar að verkum að viðskiptavinir með þarfir um mikinn gagnaflutning líta mun síður til Íslands heldur en ella og lagning sæstrengs myndi gera íslensk gagnaver að raunhæfum valkosti fyrir slíka viðskiptavini.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .