Rafsæstrengur milli Íslands og Bretlands yrði umfangsmikið verkefni og myndi án vafa hafa töluverð efnahagsleg áhrif hér á landi, bæði til langs og skamms tíma. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans.

Skammtímaáhrifin fælust fyrst og fremst í þeim fjárfestingum sem farið yrði í innanlands en langtímaáhrifin í þeim nettó gjaldeyristekjum sem myndu streyma inn til landsins. Þó kemur fram í greiningunni að stærsti óvissuþátturinn í framkvæmdinni sé án efa sæstrengurinn sjálfur. Það helgist af því að lítil sem engin alþjóðleg reynsla sé af jafnlöngum streng, og því til viðbótar verði dýpið sem strengurinn liggur á meira en áður hefur þekkst.

Noregur leggur tvo nýja sæstrengi

Norska orkumálaráðuneytið hefur gefið flutningsfyrirtækinu Statnett leyfi til að leggja tvo nýja sæstrengi til raforkuflutnings, annars vegar til Þýskalands og hins vegar til Bretlands, líkt og greint er frá á vef Samorku . Strengirnir munu hafa 1.400 megavatta flutningsgetu og yrði strengurinn til Bretlands um 800 km að lengd, en til samanburðar yrði íslenski sæstrengurinn um 1.100 km. Ráðgert er að sæstrengirnir verði teknir í notkun árin 2018 og 2020.

Að sögn Olufs Ulseth, framkvæmdastjóra Energi Norge, mun stóraukin flutningsgeta til annarra Evrópulanda hafa í för með sér aukna verðmætasköpun fyrir Noreg. Hægt verði að flytja inn vind- og sólarorku þegar hennar njóti við á lágum verðum í öðrum Evrópuríkjum, en nýta sveigjanleika vatnsaflsins til að flytja orkuna út þegar sólar og vinds nýtur ekki við og verðin því hærri á umræddum mörkuðum. Segir hann einnig að þessar nýju tengingar muni auka orkuöryggi Noregs, þar sem raforkan gegni meðal annars lykilhlutverki í húshitun.