Icelandair flutti 354 þúsund farþega í millilandaflugi í síðasta mánuði. Þetta jafngildir 18% fleiri farþegum en í ágúst í fyrra, að því er fram kemur í nýjustu flutningatölum Icelandair.

Framboðsaukning á milli ára nam 19% og sætanýting var 86,2% samanborið við 85,5% á sama tíma í fyrra. Farþegum fjölgaði mest á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 23,4% og voru þeir 55% af heildarfarþegafjölda félagsins í millilandaflugi í ágúst.

Farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru 32 þúsund í ágúst og fækkaði um 2% á milli ára.  Framboð félagsins í ágúst var dregið saman um 3% samanborið við ágúst 2013. Sætanýting nam 74,1% og jókst um 0,6 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 22% á milli ára.  Fraktflutningar jukust um 1% frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 3,9% milli ára. Herbergjanýting var 88,3% samanborið við 88,2% í ágúst í fyrra.