Fjöldi farþega Icelandair í bæði innanlands- og millilandaflugi var um 206 þúsund í síðasta mánuði, samanborið við 14 þúsund í október 2020 og 365 þúsund í sama mánuði árið 2019. Flugframboð Icelandair í október var um 65% af því sem það var fyrir Covid-faraldurinn og félagið stefnir á að koma því hlutfalli upp í 80% næsta vor. Þetta kemur fram í tilkynningu um flutningatölur fyrir októbermánuð sem flugfélagið birti í gær.

Farþegar í millilandaflugi voru um 181 þúsund í liðnum mánuði og sætanýting nam 69% en í september var hún 62%. Icelandair tekur þó fram að sætanýting í Evrópuflugi hafi numið 78% og „er því orðin svipuð og fyrir heimsfaraldur“. Hins vegar hafi sætanýting í flugi til Norður-Ameríku verið lituð af því að bandarísk landamærin hafa verið lokuð evrópskum ferðamönnum en það breyttist í gær.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningu að opnun bandarísku landamæranna fyrir bólusetta Evrópubúa marki mikilvæg tímamót. „Með þessari breytingu verður á ný opið á milli allra okkar markaðssvæða í fyrsta sinn síðan ferðatakmarkanir hófust í mars 2020 sem er gríðarlega mikilvægt og hefur þegar verið vel tekið af okkar viðskiptavinum,“ er haft eftir Boga.

Farþegar í innanlandsflugi Icelanair voru rúmlega 25 þúsund, samanborið við um 7 þúsund í október 2020 og 24 þúsund í október 2019. Það sem af er ári hafa 70% fleiri farþegar flogið innanlands en á sama tímabili árið 2020.

Fjöldi seldra blokktíma í fraktflugi jókst um 98% frá október 2020. Fraktflutningar jukust um 29% á milli ára og hafa það sem af er ári aukist um 24% miðað við sama tíma í fyrra.

Sætanýting Play 67,7% í október.

Farþegafjöldi Play var rétt undir 25 þúsund í október, samanborið við 15,2 þúsund farþega í september, og eru nú farþegar félagsins í heildina orðnir 67,6 þúsund frá því að flugfélagið flaug jómfrúarflug sitt í lok júní. Sætanýting í október var 67,7% og það sem af er ári er hún 52,3%.

Fyrirtækið sagði við birtingu á uppgjöri þriðja fjórðungs að reksturinn hafi verið undir væntingum vegna áhrifa Covid-19 á tekjur. Play tapaði 10,8 milljónum dala eða um 1,4 milljörðum króna á tímabilinu. Hins vegar var tekið fram í tilkynningunni að aðrir fjárhagsliðir, þar á meðal rekstrarkostnaður hafi verið í samræmi við væntingar.