Wow air flutti tæplega 60 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og sætanýting félagsins var um 85%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air. Til samanburðar flutti Iceland Express um 39 þúsund farþega á sama tíma í fyrra og var þá með sætanýtingu upp á um 71%. Tölurnar eru ekki með öllu samanburðarhæfar þar sem Wow air er með fleiri vélar í notkun en Iceland Express var á sama tíma í fyrra. Til upprifjunar má benda á að Wow air flug sitt fyrsta flug í byrjun júní í fyrra og keypti í október sl.  allan rekstur Iceland Express.

Í tilkynningunni kemur fram að í besta sætanýting Wow air var í mars sl. þegar hún var um 89%. Félagið flutti 20 þúsund farþega í mars.

„Við erum afskaplega stolt af þessum árangri.  Við höfum sett okkur þrjú lykilmarkmið sem við ætlum okkur að standa við,“ segir Skúli Mogensen forstjóri Wow air, í tilkynningunni.

„Við viljum bjóða upp á lægsta verðið, vera stundvísust  og ávallt bjóða upp ferska og skemmtilega þjónustu.  Við viljum þakka traustið og þessi góðu viðbrögð sem farþegar hafa sýnt okkur.“