Sætanýting hjá Wow air var 86% í apríl og maí en félagið hefur flutt um 115 þúsund farþega sem af er árinu að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Til samanburðar flutti Iceland Express, sem síðasta haust var sameinað rekstri Wow air, um 88.500 farþega á sama tímabili í fyrra og er þetta því um 30% aukning milli ára. Þá var sætanýting Iceland Express í apríl og maí í fyrra 69%.

„Við erum afskaplega stolt af þessum árangri.  Wow air er í mikilli sókn og er í harðri samkeppni í flugi til og frá Íslandi,“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Wow air, í tilkynningunni.

„Félagið hefur vaxið ótrúlega á síðastliðnum mánuðum og ekkert lát er á vexti. Við sjáum að fólk fagnar samkeppni í flugi og gerir verðsamanburð. Öll viljum við jú samkeppni á okkar litla landi og við höfum lofað að veita hana.“