Sætanýting flugfélagsins Wow air nam 86% í maímánuði samkvæmt upplýsingum frá félaginu. Icelandair sendi einnig frá sér tölur um sætanýtingu í mánuðinum nú í morgun en þar nam hún 79,7% og jókst um 2,2% frá fyrra ári.

Samkvæmt Túrista nota flugfélögin ólíkar aðferðir við talninguna og eru hlutföllin því ekki að fullu samanburðarhæf. Hjá Icelandair er hlutfallið reiknað út frá fjölda floginna kílómetra og vega lengri flugferðir þyngra, en þessa aðferð nota flugfélög sem skráð eru á hlutabréfamarkað. Þá eru frífarþegar ekki teknir með hjá Icelandair. Wow air reiknar sætanýtinguna hins vegar út frá hlutfalli frátekinna sæta um borð í vélum flugfélagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Wow air var sætanýtingin 85% í vélum félagsins á tímabilinu janúar til maí á þessu ári. Í svari til Viðskiptablaðsins er tilgreint að sætanýting í marsmánuði hafi numið 90% og maímánuði 86%, en ekki koma fram tölur fyrir janúar, febrúar eða apríl. Sé miðað við heildarsætanýtingu fyrstu fimm mánuði ársins nam meðalsætanýting í þessum þremur mánuðum 83%.