Sátt hefur fengist í það hvernig tillögur um Evrópusambandið og framhald aðildarviðræðnanna verða afgreiddar á Alþingi. Þingfundi var ítrekað frestað í dag til þess að Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, gæti fundað með fulltrúum þingflokka og náð fram sáttinni. Þingfundur er nú hafinn að nýju.

Sáttin felur í sér að umræðum um skýrslu Hagfræðistofnunar um aðildarviðræðurnar mun ljúka í dag og fer skýrlsan að því búnu til umræðu í nefnd. Tillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsóknina verður tekin til umræðu í dag. Hún verður síðan einnig tekin til umræðu í nefnd. Samhliða umræðu um tillögu Gunnars Braga verða þær tillögur sem þingflokkur VG annars vegar og Jón Þór Ólafsson Pírati hins vegar hafa lagt fram teknar til umræðu í nefnd. Síðarnefndu tvær tillögurnar verða hugsanlega teknar til umræðu í nefnd án umræðu á þingfundi.

Þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu tóku til máls á Alþingi í dag og hrósuðu samkomulaginu og þökkuðu forseta Alþingis fyrir framlag hans til að leysa hnútinn. Andrúmsloftið hefur verið gríðarlega þrungið á Alþingi í vikunni vegna umræðunnar.