Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands segir 4% atvinnuleysi á Íslandi ekki ásættanlegt, sér í lagi þar sem sjálfsmynd þjóðarinnar sé svo samofin vinnu. Jafnframt segir hún að ekki hafi verið staðið við yfirlýsingar um viðbrögð við áþreifanlegum breytingum á vinnumarkaði vegna tækniframfara líkt og markmið um að efla fullorðinsfræðslu og iðn- og tæknimenntun.

Í aðsendri grein í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar fer Drífa yfir sviptingar á vinnumarkaði síðasta árs, örlagaríku dagana í mars þegar Wow air fór á hausinn í aðdraganda kjarasamningagerðarinnar og þær umfangsmiklu breytingar sem í Lífskjarasamningunum svokölluðu felast.

En hún talar einnig um aðrar ástæður fyrir auknu atvinnuleysi, sem þó sé lítið í alþjóðlegu samhengi sé ekki ásættanlegt á Íslandi í sögulegu samhengi.

„Við höfum stært okkur af því að vinna mikið og lengi og sjálfsmynd einstaklinga er oft samofin vinnunni,“ segir Drífa í greininni sem hefur verið birt á vef Viðskiptablaðsins. „Að hafa ekki aðgengi að vinnu, hvort sem það er vegna atvinnuleysis eða skertrar starfsgetu getur því haft alvarlegar afleiðingar fyrir félagslega stöðu og sjálfsmynd svo ekki sé talað um framfærsluna.“

Þrátt fyrir það segir hún að sem betur fer hafi atvinnuleysisbætur verið hækkaðar þegar vel áraði sem komi nú mörgum til góða. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru atvinnuleysisbætur hér á landi gjöfulli en víða erlendis og fljótlegra að komast á fullar bætur heldur en til að mynda í Póllandi þar sem þarf að vinna í 5 ár en ekki 1 til að fá óskertar bætur.

Jafnframt fjallar Drífa um misvægið milli vinnumarkaðarins og áherslu á menntun hér á landi sem hún segir hafa verið of mikið í átt að háskólagreinum sem ódýrt er að kenna.

„Það er dýrara en að kenna iðn- og verknám og við súpum nú seyðið af menntaáherslum síðustu áratuga,“ segir Drífa sem segir þetta kalla á nauðsyn þess að styrkja fullorðinsfræðslu og símenntunarmiðstöðvar.

„Tveir hópar eru áberandi í þeim 7.000 hópi sem eru atvinnulausir á Íslandi í dag. Þetta eru verkamenn af erlendum uppruna og fólk með háskólapróf. Það er ljóst að sama úrræði hentar ekki báðum þessum hópum.“

Þess má geta að Eftir vinnu síða Viðskiptablaðsins fjallaði fyrr í morgun um meira en aldagamlan iðnskóla í Bandaríkjunum sem margir líta á að geti verið fyrirmynd að því hvernig bæta megi stöðu og sjálfsmynd ungra manna sem koma úr erfiðum aðstæðum og fara oft mun seinna, ef nokkurn tíman, í nám sem hentar þeim heldur en aðrir þjóðfélagshópar.