Þröskuldurinn sem samkeppnissátt Eimskips setti gæti reynst Samskipum þungur baggi verði það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að félagið hafi brotið gegn lögum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að liður í sáttinni hafi verið að mál gegn fyrrverandi stjórnendum Eimskips yrðu látin niður falla.

Það var um miðjan júnímánuð þessa árs að Eimskip undirritaði sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar þess síðarnefnda á mögulegum brotum gegn samkeppnislögum og EES-samningnum. Í sáttinni fólst að Eimskip viðurkenndi að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart eftirlitinu nægilega auk þess að hafa viðhaft samráð á tilteknu tímabili við Samskip.

Félagið féllst á að greiða 1.500 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna þessa en að auki skuldbatt það sig til þess að eiga ekki í samstarfi við önnur félög í flutningsþjónustu ef Samskip verslaði einnig við þau. Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að í sáttinni hafi falist að eftirlitið myndi falla frá því að mál þáverandi stjórnenda Eimskipa, sem höfðu réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknarinnar, yrðu áfram í rannsókn og að ekki kæmi til útgáfu ákæru vegna þeirra.

Rétt er að geta þess að hér er á ferð stærsta sektarfjárhæð Íslandssögunnar vegna samkeppnisbrota. Til samanburðar má nefna að í máli Byko og Norvik nam sektarfjárhæðin í upphafi – hún endaði sem 400 milljónir króna samkvæmt dómi Hæstaréttar í upphafi þessa árs – 650 milljónum króna og mál fjórtán einstaklinga enduðu í ákæruferli.

Breytt eignarhald

Undirritun sáttarinnar er athyglisverð í ljósi þess að á fyrri stigum höfðu bæði Eimskip og fyrrverandi forstjóri félagsins, Gylfi Sigfússon, rekið mál fyrir dómi þar sem þess var krafist að rannsókn málsins, þá jafnt hjá Samkeppniseftirlitinu og hjá héraðssaksóknara, yrði felld niður. Var það meðal annars gert á þeim grunni að rannsóknaraðgerðir hefðu verið ólögmætar í öndverðu, einstaka starfsmenn eftirlitsins hefðu verið vanhæfir í málinu og að meðferð málsins hefði dregist úr hófi fram. Þeim kröfum var ýmist vísað frá dómi eða hafnað.

Frá því að rannsókn málsins hófst hafa hins vegar orðið talsverðar breytingar á eigendahópi Eimskips. Þá stærstu má rekja aftur til sumarsins 2018 en þá keypti Samherji Holding ehf. ríflega fjórðungshlut af bandaríska fjárfestingasjóðnum Yucaipa fyrir um ellefu milljarða króna. Síðan þá hefur félagið aukið við hlut sinn jafnt og þétt. Einnig var skipt um forstjóra í kjölfar innkomu Samherja og tók Vilhelm Már Þorsteinsson aðalsætið í brúnni.

Sem kunnugt er hefur starfsemi Samherja við vesturstrendur Afríku verið til rannsóknar frá því í nóvember 2019. Heimildir blaðsins herma að út frá lagalegu sjónarhorni hafi Eimskip talið sig hafa tiltölulega sterkt mál í höndunum. Aðrar forsendur hafi hins vegar verið látnar ráða för þegar ákveðið var að sætta málið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .