Sæunn Björk Þorkelsdóttir hefur hafið störf hjá Controlant sem nýr forstöðumaður innkaupa og vörustýringar. Sæunn mun leiða og stýra uppbyggingu nýrrar einingar fyrir innkaup og vörustýringu hjá Controlant tengt auknum alþjóðlegum umsvifum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sæunn starfaði áður sem forstöðumaður innkaupastýringar og kostnaðareftirlits hjá Eimskip á árunum 2016 til 2020 þar sem hún leiddi þróun nýrrar einingar á alþjóðavísu. Hún sinnti auk þess áður ýmsum öðrum ábyrgðarstörfum fyrir félagið, stýrði innflutningsdeild félagsins í Hamborg og gegndi stöðu ferlastjóra á Íslandi.

Um árabil kenndi hún bæði flutningafræði og vörustjórnun við viðskiptabraut Háskólans í Reykjavík. Hún er formaður Vörustjórnunar- og Innkauphóps Stjórnvísi, auk þess sem hún hefur setið í ýmsum öðrum stjórnum. Sæunn er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í alþjóðastjórnun frá Strathclyde University í Glasgow.

Controlant leikur lykilhlutverk í dreifingu og vöktun á COVID-19 bóluefnum um allan heim og einnig innan Bandaríkjanna. Búist er við frekari vexti á mörgum sviðum innan fyrirtækisins, á borð við markaðs-, vöru-, fjármála-, þróunar-, gagna- og rekstrarsviðs samfara auknum vexti í alþjóðlegri lyfja- og matvæladreifingu, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þá segir að töluvert aukin eftirspurn hafi verið á lausn Controlant frá nýjum viðskiptavinum úr lyfja- og matvælaiðnaðinum. Controlant hafi því ráðið starfsfólk þvert á lykilsvið fyrirtækisins og stækkað alþjóðleg teymi og tæknisvið fyrirtækisins.