Sæunn Stefánsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Sæunn lauk BS-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2003 og hefur frá árinu 2007 verið sérfræðingur á skrifstofu rektors Háskóla Íslands. Þá var hún verkefnisstjóri aldarafmælis Háskóla Íslands árið 2011. Áður en Sæunn gekk til liðs við Háskóla Íslands var hún aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og síðar félagsmálaráðherra. Þá var hún alþingismaður 2006-2007.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands tók til starfa 1998, segir á vef Háskóla Íslands . Stofnunin er vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni. Markmið stofnunarinnar er enn fremur að styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf í landinu og einnig rannsóknir á landsbyggðinni, bæði sjálfstæðar rannsóknir háskólans og rannsóknir í  samstarfi við aðra. Markmiðið er jafnframt að  nýta staðbundnar aðstæður í umhverfi og atvinnugreinum til rannsókna og auka þekkingu á þeim, stuðla að nánum tengslum fræðasviða og deilda háskólans við rannsóknasetur á landsbyggðinni og veita nemendum aðstöðu til vettvangsnáms.

Undir stofnunina heyra sjö rannsóknasetur. Þau eru á Hornafirði, Suðurlandi, Snæfellsnesi, Suðurnesjum, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og á Húsavík.