„Það er alltaf partur af því þegar nýir menn taka við að þeim fylgja einhverjar breytingar. Ég mun leggja áherslu að vinna þær með með góðum stjórnendum og starfsfólki hér innanhúss,“ segir Sævar Freyr Þráinsson. Tilkynnt var í dag að hann hafi verið ráðinn forstjóri 365 miðla í stað Ara Edwald. Ari verður Sævar innanhandar næstu mánuði.

Sævar segir í samtali við Viðskiptablaðið spenntur að takast á við verkefnið, sérstaklega á þeim tímapunkti þegar fyrirtækið hafi sett sér að vaxa í fjarskiptum og efnismiðlun. Fyrirtækið tryggði sér í fyrra leyfi fyrir uppbyggingu og dreifingu á efni á 4G-gagnaflutningskerfi og ætlar að efla fjarskiptaþjónustu sína til muna.

Einn milljarður settur í 365 miðla

Fram kom í maí að 365 miðlar ætli að auka hlutafé félagsins um einn milljarð króna. Féð verður m.a. nýtt til að endurfjármagna lán fyrirtækisins. Sævar vill ekki greina frá því hverjir taki þátt í hlutafjáraukningunni. Gert verði opinber í ágúst, þ.e. í næsta mánuði, hverjir tóku þátt í henni og lögðu fyrirtækinu til fé.