Rekstur Sævars Karls er nú til sölu og skal skila tilboðum inn fyrir 1. maí 2013. Verslunin er í Hverfisgötu 6 en húsnæðið er ekki til sölu.

Hjónin Erla Þórarinsdóttir og Sævar Karl Ólafsson, klæðskeri stofnaðu verslunina Sævar Karl. Verslunin var fyrst staðsett í Bankastræti 9 en flutti síðar í Kringluna. Sævar keypti seinna Bankastræti 7 og innréttaði sem lúxusverslun og flutti starfsemina úr Kringlunni og aftur í Bankastrætið.

Árið 2007 keypti hópur fjárfesta verslunina og fasteignina af Sævar Karli Ólafsyni en Arev NI slhf. tók forystuna í hluthafahópnum eftir fjárhagsörðugleika eigenda í ársbyrjun 2009. Fjárhagsörðugleikarnir stöfuðu af minnkandi eftirspurn eftir munaðarvöru í kjölfar falls bankana 2008 og var reksturinn því þungur á árunum 2009 og 2010.

Um mitt ár 2010 var stjórnendum ljóst að ekki væri hægt að ná viðunandi afkomu af rekstrinum nema flytja reksturinn í minna húsnæði. Því var Bankastræti 7 leigt út og nýtt húsnæði fundið fyrir verslun Sævars Karls. Það var síðan í mars 2011 sem verslunin flutti í Hverfisgötu 6 þar sem hún er nú til húsa.