Sævar Már Þórisson
Sævar Már Þórisson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Sævar Már Þórisson hefur verið ráðinn markaðsstjóri hjá WEDO ehf. WEDO rekur Heimkaup.is, Hópkaup og Bland. Sævar mun stýra þróun vörumerkjanna til framtíðar, leiða sölu- og markaðsmál fyrirtækisins sem og leiða vörustjórnun á Heimkaup.is.

Sævar hefur enn fremur tekið sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Sævar hefur starfað í fimmtán ár í fjármála- og smásölugeiranum en hann útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Sævar hefur reynslu af stjórnun markaðsmála, vörustjórnun, þróun vörumerkja og vefsíðna.

Undanfarin þrjú ár hefur hann starfað sem verkefnastjóri hjá Aur app. Á árunum 2014-2017 var hann deildarstjóri vörugreiningar hjá Krónunni og árin 2009-2014 sérfræðingur í markaðsmálum hjá MP banka. Að auki hefur Sævar starfað sem framkvæmda- og markaðsstjóri Netbankans ásamt því að hafa sinnt kennslu við Háskólann í Reykjavík.

Guðmundur Magnason framkvæmdarstjóri Wedo býður Sævar hjartanlega velkominn til starfa.

„Það er mikill fengur í að fá jafn öflugan einstakling og Sævar til starfa hjá Wedo. Hann bætir miklu við þá þekkingu og reynslu sem við höfum yfir að búa,“ segir Guðmundur.

„Hann þekkir okkar geira vel, hefur starfað á matvörumarkaðinum og hefur leiðtogahæfileika sem eru ákaflega dýrmætir fyrir frumkvöðlafyrirtæki eins og Heimkaup.is. Hann hefur að auki marktæka og mikla reynslu af því að ná til viðskiptavina eftir stafrænum leiðum.“