Sævar Kristinsson og Kristján M. Ólafsson, sem rekið hafa ráðgjafafyrirtækið Netspor, hafa gengið til liðs við KPMG. Þeir Sævar og Kristján hafa á undanförnum árum unnið fyrir fjölmörg fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og einkaaðila að margvíslegum verkefnum. Þeir hafa sérhæft sig á sviði stefnumótunar, sviðsmyndagreininga, rekstrarstjórnunar, ferlagreininga og flutninga, auk fleiri þátta. Fram kemur í tilkynningu að Netspor hafi einnig sinnt verkefnum á sviði almannatengsla og markaðsmála. Sú starfsemi færist yfir til fyrirtækisins Aton sem þeir Ingvar Sverrisson og Friðjón Friðjónsson leiða.

Með tilkomu þeirra Sævars og Kristjáns mun KPMG styrkja ráðgjafaþjónustu sína sem mun nú geta boðið viðskiptavinum enn fjölbreyttari og vandaðri þjónustu.

Sævar Kristinsson

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sævar er Cand. Oecon. frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sem framkvæmdastjóri Netspors við rekstrarráðgjöf síðastliðin 13 ár.  Hann er fjögurra barna faðir og er í sambúð með Ólöfu Kristínu Sívertsen lýðheilsufræðingi.

Kristján M. Ólafsson

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kristján er með meistarapróf í hagverkfræði frá Universität Karlsruhe í Þýskalandi og hefur starfað við rekstrarráðgjöf síðastliðin 5 ár en hann var áður forstöðumaður flutningastjórnunar hjá Samskipum.  Hann er giftur Lydíu Ósk Óskarsdóttur bókmennta- og þýðingafræðingi og eiga þau tvær dætur.