Samtök ferðaþjónustunnar segja að það hafi verið mikil vonbrigði að til verkfalls flugumferðastjóra hafi komið í morgun.  Það sé mjög alvarlegt að fámennir hópar geti truflað flug til og frá landinu og valdið skaða fyrir flugfélögin og ferðaþjónustuna í heild.

„Verkfallið í morgun truflaði flug þúsunda farþega og eru fregnir af slíkum verkföllum fljótar að berast til annarra landa með slæmum afleiðingum fyrir ímynd landsins.Samtökin skora á samningsaðila að ná samningum áður en til næsta verkfalls kemur þar sem miklir hagsmunir eru í húfi," segir í tilkynningu frá Samtökunum.