Samtök ferðaþjónustunnar harma aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart vanda ferðaskrifstofa sem skyldugar eru að endurgreiða neytendum pakkaferðir. Samtökin hafa lagt fram nokkrar tillögur til breytinga en engar hafa verið samþykktar fyrir Alþingi.

Við núverandi Evrópulöggjöf er ferðaskrifstofum skyldugt að endurgreiða neytendum pakkaferðir innan 14 daga vegna ferða sem falla niður, ef krafa er gerð um það. Ferðaskrifstofur eru eini hlekkur ferðaþjónustukeðjunnar sem settar eru undir sérstaka lagaskyldu um endurgreiðslu.

Pakkaferðalöggjöfin er sett með það í huga að tryggja hag neytenda þegar brestur verður á framkvæmd einstakra ferða eða þegar einstök fyrirtæki lenda í vanda. Samtök ferðaþjónustunnar telja að forsendur löggjafarinnar séu algjörlega brostnar sökum COVID og hafa því verið að leggja fram tillögur að aðgerðum til lausnar á því máli.

Tillögurnar hafa meðal annars falið í sér lengingu endurgreiðslutímabilsins, að leyfð verði útgáfa inneignarnóta í stað endurgreiðslu í peningum. Að settur verði upp tímabundinn tryggingasjóður að danskri fyrirmynd sem fé verði veitt í gegnum, til að tryggja endurgreiðslur eða að veitt verði sérstök endurgreiðslulán til ferðaskrifstofa.

Samtök ferðaþjónustunnar telja að á síðustu þrem mánuðum hafi verið færð nægilega skýr rök fyrir sértækum aðgerðum vegna vandans. Samtökin lýsa verulegum vonbrigðum með það að Alþingi og ríkisstjórn sjái sér ekki fært að koma til móts við þennan vanda ferðaskrifstofa og neytenda á neinn hátt, jafnvel þótt fjöldi dæma um skýrar aðgerðir vegna sama vanda liggi fyrir í fjölda annarra Evrópuríkja.