Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla gjaldtöku Isavia og skora á Isavia að endurskoða áform sín um innheimtu bílastæðagjalda upp fyrir hópferðabíla við flugstöð Leifs Eiríkssonar að því er kemur fram í tilkynningu.

SAF segja gjaldtökuna, sem á að hefjast 1. mars 2018, án fordæma og án alls samtals við stærsta viðskiptavin Isavia ohf. – ferðaþjónustuna. Að upphæðirnar sem nefndar hafa verið til sögunnar og aðferðafræðin séu ekki í neinu samræmi við það sem gerist og gengur á flugvöllum í Evrópu eða á öðrum svæðum.

Gangi áætlanir Isavia ohf. eftir mun gjaldið fyrir að stoppa í stæði 300 m. frá flugstöðunni til að taka á móti ferðamönnum vera 7.900 kr. fyrir hópbifreiðar með 19 eða færri sæti en 19.900 kr. fyrir bifreiðar með fleiri en 20 sæti. Í London sé sambærilegt gjald um 3.900 kr. á Heathrow og 2.400 kr. á Gatwick.

Stjórn SAF og félagsfundur sem samtökin stóðu fyrir á dögunum gagnrýna ætlaða gjaldtöku og skora á Isavia ohf. að endurskoða áform sín í góðu samkomulagi við ferðaþjónustuna.

„Ferðaþjónustan þarf að búa við stöðugt rekstarumhverfi þannig að samkeppnishæfni hennar skerðist ekki, enda á Ísland í harðri samkeppni við aðra áfangastaði um hylli ferðamanna. SAF eru ekki mótfallin gjaldtöku eins og bílastæðagjöldum, en gjaldtakan þarf hins vegar að hafa skýran tilgang. Gjaldtaka fyrir vel skilgreinda virðisaukandi þjónustu getur stutt við álagsstýringu og dreifingu ferðamanna ásamt því að bæta gæði og þjónustu á hverjum ferðamannastað,“ segir í tilkynningunni.