*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Innlent 20. júlí 2018 12:49

SAF mótmæla hækkun þjónustugjalda

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla harðlega nýstaðfestum hækkunum þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla harðlega nýstaðfestum hækkunum þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum sem gerðar eru án fyrirvara og án nokkurs samráðs við samtökin. Þetta segir í tilkynningu frá samtökunum. 

 „Nýtilkynntar hækkanir á þjónustugjöldum innan Vatnajökulsþjóðgarðs ná allt að 80% og sýna algert skilningsleysi á starfsumhverfi og markaðsaðstæðum ferðaþjónustuaðila. Skammt er síðan þjónustugjöld innan þjóðgarðsins á Þingvöllum voru hækkuð um allt að 50% og í báðum tilfellum er tilkynnt um hækkanirnar fyrirvaralaust og án samráðs við hagsmunaaðila. Það er með öllu ótækt að slíkar hækkanir séu tilkynntar fyrirvaralaust á sama tíma og samráðshópur ríkisstjórnarinnar, SAF og Sambands íslenskra sveitarfélaga um heildargreiningu á, og framtíðarskipan gjaldtöku opinberra aðila af ferðaþjónustu er að störfum á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála. Eðlilegt er að öllum ákvörðunum um hækkun gjalda eða nýja gjaldtöku á vettvangi ferðaþjónustu sé frestað a.m.k. þar til tillögur samráðshópsins liggja fyrir. SAF minna á að núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á aukið samráð og samtal um málefni ferðaþjónustunnar, bæði í stjórnarsáttmála sínum og í samskiptum við SAF, sem er bæði nauðsynlegt og jákvætt. Fyrrnefndar hækkanir, aðdragandi þeirra og staðfesting er í fullkomnu ósamræmi við þá stefnu,“ segir í tilkynningunni. 

 „Í ljósi alls þessa er það eðlileg krafa SAF að viðkomandi hækkanir á gjaldskrám þjónustugjalda í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum verði dregnar til baka og öllum sambærilegum áformum frestað um óákveðinn tíma á meðan áhersla er lögð á það samráð um heildarskipan gjaldtöku af ferðaþjónustu sem þegar er hafið.“