Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) mótmæla harðlega fyrirhuguðum hrefnuveiðum sem sjávarútvegsráðherra hefur nú heimilað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„Ljóst er að hvalveiðar skaða ímynd Íslands í flestum viðskiptalöndum okkar víða um heim auk þess sem veiðarnar hafa fram að þessu verið við ströndina, samkvæmt veiðikortum Hafrannsóknarstofnunar, og haft mjög slæm áhrif á hvalaskoðun sem er orðin mjög mikilvæg afþreying í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að á síðastliðnu ári 104 þúsund ferðamenn farið í hvalaskoðun með hinum ýmsu fyrirtækjum sem bjóða upp á slíkar ferðir „og hefur eftirspurnin farið hratt vaxandi á undanförnum árum.“

„Það hafa hins vegar komið fram miklar áhyggjur hjá erlendum ferðasöluaðilum með fyrirhugaðar hvalveiðar í atvinnuskyni, auk þess sem einstök hvalaskoðunarfyrirtæki hafa fundið fyrir miklum breytingum í skoðun á hrefnu en þær sjást nú mun sjaldnar en áður,“ segir í tilkynningunni.

„Hér er því um ákaflega viðkvæma atvinnugrein að ræða sem byggir algjörlega á því að hvalir geti óáreittir komið að ströndum landsins.“

Þá segir í tilkynningu SAF að þar sem ekki hefur tekist að selja hvalkjöt til annarra landa og eftirspurn takmörkuð við íslenska markaðinn er ljóst að með veiðunum er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni eins og samtökin hafa bent á í áraraðir.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja ríkisstjórnina til að stöðva þessar tilgangslausu hvalveiðar áður en þær skaða aðrar atvinnugreinar.