*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 5. mars 2019 13:30

Airbnb upplýsi skattinn árlega

Aukið eftirlit og hærri sektargreiðslur eru krafa Samtaka ferðaþjónustunnar vegna undirboða í ferðaþjónustu.

Ritstjórn
Jóhannes Þór Skúlason er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sem hélt fundinn og kynnti skýrsluna með tillögum um aukna skilvirkni eftirlits með brotastarfsemi og undirboð í ferðaþjónustu.
Þröstur Njálsson

Meðal tillagna Samtaka ferðaþjónustunnar til að auka skilvirkni eftirlits með brotastarfsemi og undirboðum í ferðaþjónustu er að deilisíðum eins og Airbnb verði gert skylt að skila reglulega heildarupplýsingum um söluaðila og tekjur þeirra til Ríkisskattstjóra.

Er þetta ein fjölmargra tillagan samtakanna sem birtar voru á fundi sem haldinn var í dag, þar sem bent var á fjölmörg dæmi um undirboð erlendra aðila á íslenskum ferðaþjónustumarkaði sem þá geti keppt við íslenska aðila á ósanngjarnan hátt með lægri launum og lægri kostnaði.

Vilja samtökin að lagaumhverfi verði breytt þannig að aukin samvinna verði milli eftirlitsaðila og upplýsingum betur deilt á milli stofnana, auk þess sem fjármagn til þeirra verði aukið og meiri mannsskapur sett í eftirlitið, þar með til lögreglu um land allt. Einnig að heimildir Sýslumanna og eftirlitsaðila til eftirlits verði gert skýrara og sektargreiðslur hækkaðar.

Í skýrslu um málið segir m.a. að ætli íslensk fyrirtæki að keppa við verðin sem séu í boði hjá erlendum aðilum sem stundi hópbifreiðaakstur innanlands þyrftu þau að borga með ferðinni 15 til 20%. Segja samtökin slíka ólöglega starfsemi kippa grundvellinum undan rekstri íslenskra hópbifreiðafyrirtækja.

Vandamálið sé ekki eingöngu að fyrirtæki nýti sér svigrúmið sem felst í innri markaði EES svæðisins heldur að farið sé á svig við lög og reglur, þar sem erlendir hópar hafi oft með sér starfsmenn á verri kjörum en má greiða hér á landi.

En það sé oft erfitt að átta sig á hvað megi, og hvað megi ekki, og of margir mismunandi aðilar beri ábyrgð á eftirlitinu. Meðal tillagna samtakanna er að ýmis konar eftirlit verði einfaldað og komið í samráð, en um er að ræða 9 eftirlitsaðila og 5 ráðuneyti sem málefnið heyrir til.

Tillögurnar fela meðal annars í sér sérstakt átak gegn skattsvikum, með skýrari heimildum til beitingu viðurlaga til ríkisskattstjóra og nægar fjárheimildir. Einnig að bifreiðagjöld verði innheimt af erlendum bifreiðum.

Einnig að lögregla fái aðgang að lifandi skrá um leyfishafa í farþega- og vöruflutningum þar sem bifreiðar í eigu leyfishafa eru tilgreindar og leyfisskoðanir samræmdar aðalskoðun. Sem og að sérstakt rekstrarleyfi verði gert fyrir hverja bifreið í formi límmiða sem límt verði innan á hliðarrúðu bílstjóramegin, þar sem komi fram nafn leyfishafa, skráningarnúmer bifreiðar og gildistími.

Auk þess verði komið á fót miðlægri skrá yfir erlend ökutæki sem komi til landsins og að tollgæslan merki erlendar bifreiðar með akstursleyfismiða. Loks að krafist verði að pappírar um ökutæki verði þýddir.

Jafnframt að komið verði á fót einni rafrænni ábendingargátt ef grunur sé um félagsleg undirboð, brotastarfsemi erlendra aðila eða aðra brotastarfsemi í ferðaþjónustu eða á vinnumarkaði almennt. Þannig verði eftirlit aukið með sjálfboðaliðastarfsemi.

Segja samtökin að ef stjórnvöld grípi ekki strax í taumana sé raunveruleikinn sá að líklegt sé að mörg íslensk ferðaþjónustufyrirtæki muni neyðast til að flytja starsemi sína úr landi í auknum mæli til að lækka kostnað. Það þýði tilheyrandi fækkun starfsfólks hér á landi og tekjutap fyrir ríkissjóð.