Fyrirtæki í eigu Baugs eru rekin með miklum hagnaði, að því er forstjóri fyrirtækisins, Gunnar S. Sigurðsson, segir í samtali við Viðskiptablaðið. Í breska blaðinu The Sunday Telegraph birtist á dögunum frétt, þar sem spurt er hvort smásöluveldi Baugs í Bretlandi riðaði til falls, þar sem Whittard of Chelsea og Julian Graves, félög í eigu Baugs, hefðu verið rekin með 8,8 milljóna punda tapi fyrir skatta á síðasta ári.

Tölur fyrir rekstrarárið sem endaði í mars 2007

Gunnar segir að talan sé rétt, en í fréttina vanti allt samhengi. "Í fyrsta lagi eru þetta tölur fyrir rekstrarárið sem endaði í mars 2007, þannig að þetta er ársgömul frétt. Inni á því ári voru kaup Julian Graves á Whittard of Chelsea - kostnaður í kringum þau meðal annars," segir Gunnar. "Auðvitað var reksturinn á félögunum ekki eins og við vildum sjá hann á þessu rekstrarári, en hann hefur gengið betur síðan, þannig að þegar á heildina er litið er þetta fyrirtæki í ágætis málum," segir hann.

"Í Telegraph er talað um þetta sem einhvers konar undanfara hruns hjá Baugi, sem er auðvitað frekar undarleg framsetning, því þetta eru ekki stór félög í efnahagsreikningi félagsins. Fréttir sem hafa borist af okkar stærri félögum, eins og House of Fraser, Iceland Foods og Booker, hafa allar verið mjög jákvæðar og þau hafa öll gengið mjög vel. Þegar við horfum á heildarjólaverslun innan Baugs og miðum hana við jólaverslun hjá öðrum félögum erum við mjög ánægð með árangurinn - hún er betri hjá okkur en markaðinum í heildina," segir Gunnar. Hann segir að auðvitað hafi hún þó verið mismunandi milli félaga, en House of Fraser hafi gengið mjög vel og Iceland Foods átt frábær jól. "Sömu sögu má segja um Hamleys, All Saints og fleiri merki," bætir hann við.

Árið byrjar vel

Gunnar segir að byrjunin á árinu lofi góðu hjá umræddum félögum. "Þá á ég við varðandi flesta lykilþætti í rekstri og ekki síður hvað varðar skuldsetningu. Ég myndi áætla að safn Baugs skilaði um 500 milljónum punda í EBITDA [hagnað fyrir skatt og fjármagnsliði] á ári og er skuldsett fyrir rúmlega tvisvar sinnum það að meðaltali. Ég held að það sé óhætt að fullyrða það að staða okkar í Bretlandi hefur aldrei verið sterkari en hún er núna."

Aðspurður segir hann tvímælalaust að fyrirtækjasafn Baugs sé rekið með hagnaði eftir skatta. "Já, ágætis hagnaði alveg hreint. Við vinnum stanslaust að því að bæta arðsemina, eins og tilheyrir þessum rekstri, en þegar á heildina er litið eru fyrirtækin rekin með miklum hagnaði," segir hann.