Fyrirspurn varðandi rekstur safns, verslunar og kaffihúss á Laugavegi 89-91 var rædd á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur síðasta föstudag.

Umsögn skipulagsfulltrúa var jákvæð. Um er að ræða húsið þar sem verslunin Gallerí 17 var rekin um árabil og húsið við hliðina á því. Verslunin Eva var þar um tíma en lokaði áramótin 2010-2011 og hefur húsið staðið autt svo gott sem alla tíð síðan.

Ýmsar hugmyndir hafa verið um nýtingu hússins, en af þeim hefur ekki orðið ennþá. Ingunn Helga Hafstað arkitekt lagði fram fyrirspurnina um rekstur safns, verslunar og kaffihúss fyrir hönd félagsins MSG ehf., en Ingunn varðist allra frétta af málinu þegar Viðskiptablaðið náði af henni tali. Ekki náðist tal af eigendum MSG ehf. við vinnslu fréttarinnar.