Björgólfur Thor Björgólfsson leiðir nýtt fjárfestingarfélag, Aurora Acquisition Corp., sem stefnir að skráningu í kauphöll Nasdaq í New York að undangengnu frumútboði .

Fjárfestingarfélagið er svokallað „blank check" félag sem mun leggja áherslu á fjárfestingar í tækni- og fjölmiðlafyrirtækjum í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.

Félagið gerir ráð fyrir að afla 200 milljónum Bandaríkjadala í útboðinu með því að bjóða 20 milljónir hluta á 10 dollara hvern. Þá hyggst Novator skrá sig fyrir hlutafé að fjárhæð 35 milljónir dollara til viðbótar. Fjárhæð útboðsins nemur því um 235 milljónum dollara, eða sem samsvarar 30 milljörðum íslenskra króna, en gert er ráð fyrir að útboðið geti stækkað í allt að 265 milljónir dollara ef allir kaupréttir verða nýttir.

Bakhjarl fjárfestingarfélagsins er Novator Capital Advisors LLP, 750 milljón dollara fjárfestingarfélag innan Novator samstæðunnar sem Björgólfur Thor kom á fót á síðasta ári. Tilgangur félagsins er sagður vera fjárfestingar í skráðum tækni- og fjölmiðlafyrirtækjum og félögum af því tagi sem stefna á skráningu á markað.

Aurora Acquisition var stofnað árið 2020 og stefnt er að skráningu undir merki AURC.U.