Í dag lýkur formlega söfnuninni „Dollar á mann“ sem MND félagið hefur gengist fyrir til að safna fé til rannsókna á MND sjúkdómnum.  Markmið söfnunarinnar var að safna jafngildi eins Bandaríkjadollara á hvern Íslending til rannsókna á þessum banvæna sjúkdómi.  Miðað við fjölda Íslendinga 1. desember síðast liðinn er ljóst að þetta markmið hefur nú náðst því um 21 milljón króna hefur nú safnast, segir í fréttatilkynningu.

Úr neðsta sæti i það efsta „Ég hef sjaldan verið eins stoltur af því að vera Íslendingur og núna, því við erum að færast úr því að hafa ekki lagt eina einustu krónu til rannsókna á MND sjúkdómnum yfir í það að vera sú þjóð sem leggur  hlutfallslega mest,“ segir einn helsti hvatamaður söfnunarinnar Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins.   Guðjón segir það von þeirra sem að söfnuninni stóðu að aðrar þjóðir fylgi fordæmi Íslendinga og leggi einn dollar á hvern íbúa til rannsókna, en með því væri hægt að stórefla rannsóknir á MND og skyldum sjúkdómum.  Vegna þess hve fáir greinast með MND sjúkróminn á hverju ári hefur minna fé verið varið til rannsókna á honum en mörgum öðrum algengari sjúkdómum á undanförnum árum. Það er von manna að fordæmi Íslendinga geti orðið til að hleypa auknum krafti í MND rannsóknir. Árlega greinast 5 ný MND tilvik hér á landi og jafn margir sjúklingar látast af völdum sjúkdómsins á hverju ári. Liggur lífið á Sérstakur stuðningshópur á vegum MND félagsins sá um framkvæmd söfnunarinnar og leitaði hann til nokkurra fyrirtækja og fékk góðar undirtektir. Aðalstuðningsaðili söfnunarinnar er Atorka en aðrir helstu stuðningsaðilar eru Actavis, Glitnir, Kaupþing, Gift fjárfestingafélag og Sjóvá.  Nokkur önnur fyrirtæki styrktu verkefnið. Þá leggur MND félagið sjálft fé í söfnunina en það er gjafafé sem einstaklingar hafa fært félaginu.  Á blaðamannafundi sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu í dag afhentu stuðningsaðilarnir fulltrúum MND félagsins styrki sína og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra ávarpaði viðstadda. Söfnunarféð verður varðveitt í sérstökum sjóði og verður styrkjum til rannsókna úthlutað af stjórn MND félagsins í samráði við læknateymi sem í eiga sæti Grétar Guðmundsson taugalæknir á Landspítala, Peter Andersen yfirlæknir í Umea í Svíþjóð og Brian Dickie, yfirmaður rannsókna hjá Bresku MND samtökunum.  „Það verður strax sett af stað vinna við að úthluta styrkjum til rannsókna því þetta er banvænn sjúkdómur og okkur liggur lífið á,“ segir  Guðjón Sigurðsson sem í október næst komandi tekur við formennsku í Alþjóðasamtökum MND félaga. Hann segir að þar muni hann vekja athygli á árangri Íslendinga og hvetja aðrar þjóðir til að setja sér sambærileg markmið.