Neytendasamtökin ætla að láta reyna á lögmæti lána sem bera breytilega vexti og munu fara með þrjú prófmál fyrir dóm. Samtökin hyggjast stefna bönkum landsins og leita nú að lántökum sem vilja fara með mál sín fyrir dóm. Skráning til þátttöku er að finna á vefsíðunni vaxtamalid.is .

Samtökin segja ákvörðunina um að stefna bönkunum vera tilkomna eftir að þeir höfnuðu kröfu um að breyta skilmálum lánanna og leiðrétta hlut þeirra lántaka sem „hallað hefur verið á með vaxtabreytingum sem standast ekki ákvæði laga,“ að því er segir í fréttatilkynningu. Samtökin telja lán með breytilegum vöxtum ólögleg þar sem ákvarðanir um vaxtabreytingar eru „verulega matskenndar og ógegnsæjar“.

Sjá einnig: Vextir fylgi reglum í stað geðþótta

„Neytendasamtökin munu fara með þrjú mál fyrir dóm, til að fá niðurstöðu og fordæmi fyrir önnur lán með breytilegum vöxtum. Bönkunum verður stefnt til ógildingar skilmálanna og endurgreiðslu ofgreiddra vaxta til fjölda ára. Ef málin vinnast gæti endurgreiðsla hlaupið á mörg hundruð þúsundum króna fyrir hvert lán, jafnvel milljónum,“ segir á vef samtakanna.

Þau hafa samið við Lögfræðistofu Reykjavíkur um að meta réttarstöðu fólks, reikna kröfur og senda kröfubréf til lánafyrirtækja. Á vefsíðunni geta lántakar veitt lögfræðistofunni umboð og verkbeiðni en lögmannsþjónustan stendur til boða gegn árangurstengdri þóknun.

Í tilkynningunni segir að margir dómar og úrskurðir hafa kveðið um að óskýrir skilmálar og einhliða vaxtabreytingar sé fyrirkomulag sem standist ekki lög er þar bent á dóm Hæstaréttar árið 2017 sem staðfesti úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála um að Íslandsbanka hefði verið óheimilt að hækka vexti á fasteignaláni án skýringa. Þar að auki vitna þau í dóma Evrópudómstólsins og úrskurð Neytendastofu.

„Mikilvægast er þó það að lántakar séu ekki útsettir fyrir einhliða ákvörðunum um vaxtabreytingar lána sinna í framtíðinni. Líklega munu vextir á Íslandi hækka aftur að loknu Covid samdráttarskeiðinu og þá þarf að vera alveg skýrt hvað ræður vöxtunum, enda um mikla hagsmuni að tefla fyrir lántaka.“

Á vefsíðu samtakanna kemur fram að VR hafi lagt samtökunum til „veglega fjárhæð“ til málarekstursins. Einnig hafi Neytendasamtökin fengið styrk frá Samtökum fjármálafyrirtækja .