Til þess að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tölvur og tæki hefur verið opnaður vefur þar sem raddsýnum á íslensku verður safnað.  Vefurinn heitir samromur.is og var opnaður fyrr í vikunni en þar gefst almenningi kostur á að leggja verkefninu lið með því að lesa inn örstutt hljóðdæmi.

Raddsýni eru eru nauðsynleg til þróunar á hugbúnaði sem gerir tölvum kleift að skilja og tala íslensku, segir í fréttatilkynningu um verkefnið. Söfnunin er unnin í samstarfi Almannaróms, Deloitte og nemenda í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Á vefnum samromur.is verður sýnishornum af upplestri frá breiðum og stórum hópi einstaklinga safnað. Áður en þeir hefja lestur gefa einstaklingar takmarkaðar bakgrunnsupplýsingar, sem eru ekki persónugreinanlegar, og veita upplýst samþykki fyrir notkun sinna raddsýna í þágu rannsókna- og þróunar á sviði máltækni fyrir íslensku. Um leið og þátttakendur leggja fram sitt raddsýnishorn verða þeir beðnir um að staðfesta nákvæmni hljóðbrota frá öðrum og auka þannig gæði gagnasafnsins.