Lengi hefur verið á huldu hver raunveruleg auðæfi heimskonunnar Sonju de Zorrilla hafi verið. Meðal þess sem þótt hefur skjóta stoðum undir grun um mikil auðæfi Sonju er listaverkasafn hennar sem geymdi verk eftir marga heimsfræga listamenn. Á meðal verka sem seld voru af dánarbúi Sonju hjá uppboðshúsinu Christie's á árunum 2004-2005 voru verk eftir listamennina Francis Bacon, Antoni Tàpies, David Hockney, Marisol, Theodoros Stamos og André Lanskoy.

Picasso-verkið steinprent

Samkvæmt John J. Ferguson, lögfræðingi Sonju, fékkst tæplega milljón dollara fyrir verkin á uppboðum Christie's. Þá átti Sonja verk eftir spænska listamanninn Pablo Picasso sem hékk uppi á vegg í íbúð hennar við 580 Park Avenue, en verðmætustu málverk listamannsins eru milljarða virði. Verkið sem hékk uppi á vegg í íbúð Sonju, Femme au Corsage à Fleurs var svokallað steinprent og á að hafa verið af Jacqueline, eiginkonu Picasso.

Sjá einnig: Sjóður Sonju de Zorrilla fundinn

Ekki liggur fyrir hvað varð um verkið á heimili Sonju en uppboðshúsið Christie's hefur á undanförnum árum selt nokkur sambærileg verk. Þar kemur fram að upplag verksins sé fimmtíu eintök og hefur selst á um 110 þúsund dollara, sem samsvarar um 14 milljónum íslenskra króna. „Steinprent eru prentuð með sérstökum kalksteini, hvert einasta þrykk er síðan áritað og númerað en verðgildið fer mikið eftir því hvernig eintökin eru merkt," segir listfræðingurinn Aðalstein Ingólfsson og vinur Sonju sem kynnti sér verk Picasso þegar hann heimsótti heimili hennar í New York.

Sjá einnig: „Aðalverðmætin“ komu frá ástmanni Sonju

Dæmi eru um að verk sem áður voru í eigu Sonju hafi selst á mun hærri fjárhæðir en steinprent Picasso. Verkið Great American Nude #46 eftir pop listamaninn Tom Wesselmann var selt á 845 þúsund dollara um 100 milljónir króna, hjá uppboðshúsinu Sotheby's árið 2014. Seljandi verksins hafði upphaflega keypt það af dánarbúi Sonju de Zorrilla þegar Christie's bauð upp verk hennar árið 2004 en þá var það selt á rúmlega 430 þúsund dollara um 55 milljónir króna.

Loeb safnaði frönskum impressjónistum

Stóra ástin í lífi Sonju var John L. Loeb eldri en hann var einn af stofnendum Wall Street verðbréfafyrirtækisins Loeb, Rhoades & Company og varð árið 1951 forstjóri Kauphallarinnar í New York. Hann kvæntist Frances Lehman en hún var barnabarn eins þriggja stofnenda fjárfestingarbankans Lehman Brothers og áttu þau fimm börn saman. Þau hjónin söfnuðu listaverkum líkt og Sonja en þau voru sérstaklega hrifin af list franskra impressjónista, má þar nefna Manet, Cezanne og Renoir. Salvador Dalí málaði mynd af John Loeb árið 1958 en myndin er í eigu sonar hans.

Sjá einnig: Styrkir Sonju sjóðsins frá upphafi

Ársreikninga Sonja Foundation fyrir árin 2003 til 2019 má finna hér.

Ítarlega er fjallað um mál Sonju Foundation í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .