Ekki munu koma út fleiri bindi af Sögu Akraness að sinni, og mögulega aldrei. Frá þessu greinir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, í samtali við Skessuhorn. Tvö bindi hafa nú þegar verið gefin út og var markmiðið að gefa út tvö í viðbót. Þó verður ekkert gert úr því í bili.

„Það var ekki gert ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni í síðustu fjárhagsáætlun og ég á ekki von á að það verði heldur settir fjármunir í það nú í haust. Ég reikna með að bæjarráð taki formlega ákvörðun um framhald verkefnisins seinna í sumar og að þetta verði niðurstaðan,“ segir Regína.

Búið er að greina Gunnlaugi Haraldssyni, sem unnið hefur að ritun Sögu Akraness, frá þessari ákvörðun. Líklegt er að ekkert rit hafi valdið jafn miklu umtali og fjaðrafoki á síðari tímum hér á landi, en ritun fyrstu bindanna lauk árið 2011. Þá hafði verkefnið tekið um 14 ár og kostað Akranesbæ hátt í 100 milljónir króna. Vakti það mikla reiði í samfélaginu.

Harpa Hreinsdóttir , íslenskukennari á Akranesi, var einn af hörðustu gagnrýnendum ritsins og hefur hún skrifað ótal færslur um málið. Sakaði hún Gunnlaug meðal annars um ritstuld og fúsk og benti á margt sem var einfaldlega ekki rétt í bókinni.

Þá skrifaði Páll Baldvin Baldvinsson eftirminnilegan ritdóm um Sögu Akraness í Fréttatímanum og brugðust Gunnlaugur, Kristján Kristjánsson útgefandi og Akraneskaupstaður ókvæða við. Í ritdómi Páls sagði meðal annars:

„Höfundur og útgefandi þverbrjóta reglur um myndrétt, elta uppi myndir og afrita í mislitlum gæðum af vef og úr bókum. Þó segja þeir sjálfir: „Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti …“ en stela sjálfir ótæpilega sem skilar sér í illa unnu myndefni, muskulegum eftirtökum, svo grófkvörðuðum að mynd eftir mynd er ónýt í prentun. Bókin er merkilegt sönnunargagn um lágt siðferðisstig íslenskrar bókaútgáfu og ætti að verða fyrsta verk sýslumannsins á svæðinu að gera eintök bæjarstjórnarinnar á Akranesi upptæk í svo stóru þjófnaðarmáli. Er ekki lögregla á Akranesi?“