Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, er í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Þar segir hann meðal annars frá því að ríkislán til bankans hafi alltaf verið skammtímalausn og ræðir um endurskipulagningu bankans, þátttöku hans í veðlánaviðskiptunum, áhuga erlendra aðila og framtíð íslensks fjármálakerfis.

Hluti viðtalsins, sem er ekki að finna í blaðinu, er birtur hér að neðan.

Milljarða markaður með skuldabréf

Þorvaldur segir markað með skuldabréf gömlu bankanna þriggja hafa verið mjög virkan eftir að þeir hrundu. Það hefur leitt til þess að töluverð óvissa hefur verið um hverjir helstu kröfuhafar, og þar af leiðandi framtíðareigendur, þeirra eru. Saga Capital er sá innlendi banki sem hefur verið leiðandi í að miðla þessum skuldabréfum. Þorvaldur segir að bankinn hafi þó ekki keypt slík bréf sjálfur.

„Við hefðum kannski átt að gera það, en vorum ekki tilbúin í slíkar fjárfestingar svo skömmu eftir bankahrunið. Við íhuguðum að kaupa skuldabréf í Kaupþingi þegar þau voru seld á fimm prósent af nafnvirði. Verðið í dag er um 24,3 prósent af nafnvirði. Þeir sem hafa keypt þessi bréf í gegnum okkur hafa því hagnast ansi vel undanfarna mánuði. Þetta er gríðarlega stór markaður. Ég áætla að við séum búin að miðla um það bil 500-1000 milljónum evra að nafnvirði frá því að við byrjuðum á þessu. Það er fyrst og fremst verið að miðla á milli erlendra aðila og við höfum lagt í mikla rannsóknarvinnu samhliða þessu."

Spenntur fyrir íslenskum hlutabréfamarkaði

Óhætt er að segja að margir landsmenn hafi brennt sig illa á þeim hlutabréfamarkaði sem þreifst hérlendis á uppgangstímum síðustu ára. Þrátt fyrir það sem var er Þorvaldur afar spenntur fyrir því að byggja upp nýjan og stöðugri hlutabréfamarkað á Íslandi.

„Því miður er ýmislegt að koma upp úr kössunum sem var ekki í lagi. En allt að einu þá held ég að það sé forsenda fyrir þróun íslensks efnahagslífs að hér sé virkur hlutabréfamarkaður. Ný lög um fjármálafyrirtæki munu skerpa reglur verulega og koma í veg fyrir margt af því sem þreifst hér áður fyrr geti gerst aftur. Við verðum að horfast í augu við fyrri mistök, læra af þeim og byggja markaðinn upp á heilbrigðari hátt. Ég er mjög spenntur við að taka til hendinni við það.“

_____________________________

Nánar er rætt við Þorvald Lúðvík í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .