Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital Fjárfestingarbanka, tilkynnti á starfsmannafundi í dag að nafni bankans yrði breytt lítillega og verður frá og með deginum í dag einfaldlega Saga Fjárfestingarbanki. Þorvaldur sagði þetta gert til að undirstrika sérhæfingu bankans og sérstöðu sem banka atvinnulífsins og eina fjárfestingarbanka landsins. Fyrirtækið sé eftir sem áður hið sama og rekið undir sömu kennitölu.

„Það er vöxtur í fyrirtækjaráðgjöfinni hjá okkur og mikil sókn. Sömuleiðis í verðbréfamiðluninni. Við erum með um tíu manns í fyrirtækjaráðgjöfinni sem hafa meira en nóg að gera. Það eru þrír í verðbréfamiðlun sem við teljum vera nógu margir í fyrirsjáanlegri framtíð. Við höfum verið heppin að fá mjög öflugt lið víða að bæði í ráðgjöfina og miðlunina og erum ansi brött á framhaldið," segir Þorvaldur Lúðvík. Bankinn sé nú eini starfandi fjárfestingabanki landsins og þau hafi viljað einfalda nafnið þannig að það endurspegli enn frekar þessa sérstöðu eftir miklar breytingar í íslenskum fjármálaheimi að undanförnu.

Flytja í nýtt húsnæði

Samhliða nafnabreytingunni hefur Saga Fjárfestingarbanki flutt í nýtt húsnæði í Reykjavík og er nú á 14. hæð glerturnsins við Höfðatorg. Þorvaldur segir að þessu fylgir aukin hagkvæmni auk þess sem gamla starfsstöðin hentaði ekki starfseminni lengur. Hann lagði áherslu á að ekki væri verið að draga úr mikilvægi starfseminnar á Akureyri með þessu. Þar sé 21 starfsmaður en 16 starfsmenn í Reykjavík.

„Framlínan í fyrirtækinu hefur alltaf verið hér [í Reykjavík] á meðan efnahagsreikningurinn, áhættustýring, bókhald og annað slíkt hefur alltaf verið fyrir norðan," segir Þorvaldur Lúðvík.

Saga Fjárfestingarbanki sérhæfir sig hér eftir sem hingað til í hefðbundinni fjárfestingarstarfsemi svo sem fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun, eignaumsýslu, skuldabréfaútboðum og fjárfestingaráðgjöf til fyrirtækja, stofnana og annarra fagfjárefsta.