Í ljósi þess að Hæstiréttur kvað ekki upp um gildi krafna Saga Capital á hendur Insolidum þar sem kaupsamningur, lánssamningur og tryggingaréttindi eru enn í fullu gildi, munu lögmenn fjárfestingarbankans leita hefðbundinna úrræða við að ná fram fullnustu krafna gagnvart viðsemjendum sínum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Saga Capital sendi frá sér fyrir stuttu, og lögmenn fjárfestingarbankans skrifa undir.

„Hæstiréttur kvað í dag upp úr með að ekki sé hægt að knýja fram breytingu á hlutaskrá einkahlutafélags með innsetningargerð. Til þess þurfi fyrst dóm í venjulegu einkamáli sem fullnægt yrði með aðfarargerð. Af dómnum leiðir að til þess að innheimta kröfur sínar á hendur Insolidum ehf. þarf Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. að fara í venjulegt innheimtumál en slíkur málarekstur getur tekið langan tíma,” segir í yfirlýsingu.

„ Þessi niðurstaða skapar fjármálafyrirtækjum erfiðleika við að ná fram fullnustu umsaminna krafna gagnvart viðsemjendum sínum, en þetta er í fyrsta skiptið sem slík krafa er tekin fyrir af íslenskum dómstólum. Í niðurstöðu Hæstaréttar felst hins vegar enginn dómur um gildi krafna Saga Capital á hendur Insolidum, þar sem kaupsamningur, lánssamningur og tryggingaréttindi eru í fullu gildi á milli aðila. Að fenginni niðurstöðu Hæstaréttar mun bankinn leita hefðbundinna innheimtuúrræða í því skyni að tryggja hagsmuni sína til hins ítrasta og jafnframt láta reyna á ábyrgð stjórnenda félagsins komi í ljós að það hafi ekki lengur burði til þess að standa við skuldbindingar sínar.”

Saga Capital lánaði Insolidum rúmar 582 milljónir og hafði milligöngu um kaup á stofnfjárbréfum í SPRON að nafnvirði 47.5 milljónir á genginu 11,79. Til tryggingar voru verðbréf auk veðs í handveðssamningar með öllum hlutum eigenda Insolidum, en það eru Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, auk Páls Ágústs Ólafssonar sonar hennar.

Eftir mikla lækkun á hlutabréfum í SPRON krafðist Saga Capital þess að Insolidum greiddi skuld sína ellegar legði fram fullnægjandi tryggingar innan tveggja sólarhringa. Insolidum varð ekki við því, og því ætlaði Saga Capital að ganga að handveðssamningum og láta breyta hluthafaskrá Insolidum þannig að Saga Capital yrði skráður eigandi allra hluta. Insolidum varð ekki við þeirri kröfu, og komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að beinni aðfarargerð yrði ekki beitt til að breyta hluthafaskránni.