Saga Capital hefur lokið við sölu verðtryggðra skuldabréfa fyrir Kópavogsbæ í útboði til fagfjárfesta á innlendum verðbréfamarkaði. Seld voru skuldabréf fyrir  2,8 milljarða króna með 5% verðtryggðum vöxtum.Með skuldabréfaútgáfunni er Kópavogur að endurskipuleggja efnahagsreikning sinn og breyta skammtímalánum í langtímalán segir í tilkynningu.

Um er að ræða stækkun á skuldabréfaflokki Kópavogs, KOP 08 1, sem Markaðsviðskipti Saga Capital gaf út í desember í fyrra og skráði í Kauphöllinni, Nasdaq OMX á Íslandi. Þetta eru verðtryggð jafngreiðslubréf í opnum flokki til 10 ára með tveimur greiðslum á ári.

Hafa aflað 20 milljarða

Í tilkynningu frá Saga Capital segir að innlendur skuldabréfamarkaður hafi frá hruni að mestu einkennst af veltu skuldabréfa með ríkisábyrgð. Saga Capital hefur síðustu misseri aflað alls um 20 milljarða króna fyrir fyrirtæki og sveitarfélög með skuldabréfaútgáfu, nú síðast með fimm milljarða útboði fyrir Landsnet og útboði upp á einn milljarð fyrir Mosfellsbæ.  Það er til marks um aukinn vilja og getu innlendra fagfjárfesta til að taka þátt í  endurreisn landsins með því að veita fjármunum til uppbyggingar innviða og fjármögnunar sveitarfélaga á landinu.

Frá hruni hefur Saga Capital Fjárfestingarbanki  verið í fararbroddi við endurskoðun allra skilmála og skilyrða er lúta að frumútgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Nýir lánaskilmálar lúta fyrst og fremst að fjárfestavernd og gegnsæi og munu varða leið til uppbyggingar íslensks atvinnulífs í kjölfarið.