Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum en þar segir að þetta feli í sér að eignasafni Saga Capital er skipt upp þannig að þær eigur sem tilheyra bankastarfsemi verða áfram innan hans en aðrar eigur eru seldar, m.a. eigur sem draga kunna úr rekstrarhæfi og eiginfjárstyrkleika.

Þá kemur fram að þetta sé ennfremur gert til að koma til móts við möguleg áhrif óinnleiddra tilskipana Evrópusambandsins hér á landi.

„Regluverk og lagaumgjörð fjármálalífsins hafa víða um heim verið endurskoðuð í kjölfar lausafjárkreppunnar,“ segir í tilkynningunni.

„Ísland er engin undantekning og hérlendis hefur verið unnið að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki frá bankahruninu síðasta haust. Búist er við að þessar breytingar taki meðal annars tillit til ábendinga finnska sérfræðingsins Kaarlo Jännäri og til eiginfjártilskipana ESB sem t.d. lúta að tekjufærðri ívilnun lánakjara af skuldum fjármálafyrirtækja og skatteign þeirra.“

Fram kemur að stjórnendur Saga Capital hafi því í nánu samráði við stjórnvöld unnið að endurskipulagningu bankans sem ætlað er að mæta þessum fyrirhuguðu breytingum á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja, áður en þær koma til framkvæmda. Þetta sé gert samkvæmt markaðri stefnu stjórnar „um að vera á undan lagabreytingum í starfsumhverfi bankans og vera á hverjum tíma traust og gegnsæ í starfsemi hans,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

Bankinn segir reksturinn hafa gengið ágætlega í ár og einkennist helst af vaxandi þóknanatekjum og lægri rekstrarkostnaði, en einnig af vaxandi afskriftum sem endurspegla almennt ástand í efnahagslífinu.

„Í kjölfarið er efnahagsreikningur bankans mun minni, áhætta eigna hans er minnkuð verulega og rekstrarhæfi mjög gott. Þá er eiginfjárhlutfall hátt og lausafjárstaða góð,“ segir í tilkynningunni.