Að sögn Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, forstjóra Saga Capital, mun bankinn fara sömu leið og VBS Fjárfestingabanki við tekjufærslu á láni fjármálaráðuneytisins til bankans. Það mun hafa jákvæð áhrif á eiginfjárhlutfall bankans, svokallað CAD-hlutfall.

Að sögn Þorvaldar liggja þar að baki gildandi alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IFRS).

Aðspurður um  óinnleidda evróputilskipun hér á landi, en tilskipunin  tekur mið af breyttu lánshæfi lántakanda  og möguleg áhrif á CAD-hlutfall hans, telur Þorvaldur að áhrif hennar eigi ekki við í þessu tilviki.

,,Verði tilskipunin lögleidd hér á landi og túlkuð á þann veg að hún taki til nýs láns eins og hér um ræðir, þarf að skoða stöðuna út frá því, eins og gera þarf við allar breytingar á laga- og regluumhverfi á  hverjum tíma.   Burtséð frá því þá á þessi tilskipun – samkvæmt okkar lögspekingum – ekki við gerning eins og þennan. Staðan er hins vegar vel viðunandi nú og engin sérstök þörf á aðgerðum.“

Það er ljóst að umrædd tilskipun er ekki innleidd hér á landi og það þarf lagabreytingu til að innleiða hana. Líklegt er að það þurfi að bíða til hausts með það og ef hún verður innleidd er væntanlega einhver aðlögunartími eftir það."

Þorvaldur sagði að það væri þeirra skilningur að verði endurmat lántaka á skuldum vegna verri stöðu skuldara megi ekki telja slíkt til CAD-hlutfalls. Það eigi hins vegar ekki við um þennan gerning. Hann sagði aðspurður telja að þetta ætti ekki að skapa vandamál í þeirra tilviki og væri því bjartsýnn á framhaldið.