Glitnir og 365 hf. hafa samið við Saga Capital Fjárfestingarbanka um að bankinn annist viðskiptavakt með hlutabréf félaganna fyrir eigin reikning Saga Capital.  Í því felst að Saga Capital skuldbindur sig til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf Glitnis og 365 hf og tryggja þannig seljanleika þeirra. Saga Capital vaktar nú þegar viðskipti með bréf SPRON, Marels og Icelandair Group.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að viðskiptavaktir sem þessar efla viðskipti með viðkomandi hlutabréf og stórbæta þjónustu við hluthafa. Mikil virkni í viðskiptum með hlutabréf fyrirtækja eykur seljanleika þeirra og dregur þannig úr áhættu og viðskiptakostnaði fjárfesta. Að auki leiða mikil viðskipti til gegnsærri verðmyndunar og meiri veltu viðkomandi hlutabréfa.

Í samningi Saga Capital við Glitni skuldbindur bankinn sig til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf Glitnis að lágmarki tvær milljónir að nafnverði á verði sem Saga Capital ákveður í hvert skipti. Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum skal ekki vera meiri en 0,8% og frávik frá síðasta viðskiptaverði ekki meira en 3,0%. Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern skal vera kr. 200 milljónir að markaðsvirði.

Í samningi Saga Capital við 365 skuldbindur bankinn sig til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf 365 að lágmarki ein milljón að nafnverði á verði sem Saga Capital ákveður í hvert skipti. Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum skal ekki vera meiri en 1,25% og frávik frá síðasta viðskiptaverði ekki meira en 3,0%. Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern skal vera kr. 100 milljónir að markaðsvirði.