Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur ákveðið að styrkja Jökulsárhlaup, víðavangshlaup um eitt fallegasta svæði landsins og hvetja þannig til íþróttaiðkunar og útivistar ásamt því að kynna þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að Jökulsárhlaup verður haldið í fimmta sinn, 26. júlí næstkomandi og er með vinsælustu víðavangshlaupum landsins að því er segir í tilkynningunni.

„Ástæðan er einföld, hlaupið er um stórbrotið landslag Þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum með útsýni sem á sér ekki hliðstæðu í fegurð og fjölbreytileika. Leiðin liggur um margar af helstu náttúruperlum landsins, Dettifoss, Hólmatungur, Hljóðakletta og Ásbyrgi og fjölbreytileiki landslagsins, náttúrunnar og jarðfræðinnar er hreint ótrúlegur. Allt frá hrikalegum gljúfrum, hvítfyssandi fossum, steinrunnum tröllum og stuðlabergshöllum að ilmandi lyngbrekkum, birkiskógum, skoppandi smálækjum og lygnum tjörnum,“ segir í tilkynningunni.

Hlauparar geta valið um þrjár vegalengdir. Dettifoss-Ásbyrgi, 32,7 km;  Hólmatungur-Ásbyrgi, 21,2 km og Vesturdalur-Ásbyrgi, 13.2 km.

Frekar upplýsingar um tilhögun hlaupsins er að finna á heimasíðunni: http://www.kelduhverfi.is/?mod=sidur&mod2=view&id=29