Rekstrartap Saga Capital Fjárfestingarbanka árið 2007 nam 825 milljónum króna, sem endurspeglar annars vegar stofnkostnað, sem var að stærstum hluta gjaldfærður á árinu, og hins vegar erfið skilyrði á innlendum og erlendum mörkuðum, segir í fréttatilkynningu.

Saga Capital Fjárfestingarbanki var stofnaður seint á árinu 2006 og tók formlega til starfa í júnímánuði 2007.

Eignir Saga Capital Fjárfestingarbanka í árslok námu 38 milljörðum króna, eigið fé var 9,7 milljarðar og eiginfjárhlutfall á CAD-grunni 35,3%.

„Rekstrarkostnaður var lágur á síðasta ári og áfram verður beitt aðhaldi og ráðdeild í rekstri Saga Capital Fjárfestingarbanka. Starfsfólkið og innviðirnir hafa staðist vel þær krefjandi aðstæður sem ríkt hafa frá stofnun bankans og við erum bjartsýn á áframhaldandi vöxt og uppbyggingu, sem endurspeglast í nýlegri umsókn okkar um viðskiptabankaleyfi. Við munum halda áfram að einbeita okkur að smærri og millistórum fyrirtækjum, auk þess að tryggja viðskiptamönnum bankans hröð og fagleg verðbréfaviðskipti gegn hóflegri þóknun. Við munum vaxa eins og klæðin leyfa, erum opin fyrir þeim fjölmörgu möguleikum sem núverandi ástand skapar og erum vel í stakk búin til að nýta sóknarfærin“, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital Fjárfestingarbanka í fréttatilkynningunni.

Markaðshlutdeild bankans í Kauphöll Íslands setur hann í fjórða sæti á eftir stóru viðskiptabönkunum eftir sex mánaða starfsemi.

Saga Capital hefur sótt um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlitsins.

Frá áramótum hefur skulda- og hlutabréfaeign bankans verið minnkuð verulega og stóð efnahagsreikningur hans í 18 milljörðum króna í byrjun mars og CAD eiginfjárhlutfall í 53%. Lögbundið lágmark fjármálastofnana skal vera 8,0%. Við núverandi aðstæður á lánamörkuðum og í efnahagslífinu er mikill styrkur að vera með hátt eiginfjárhlutfall og geta valið af kostgæfni tímasetninguna við vöxt efnahagsreikningsins, segir í fréttatilkynningunni.

Í árslok voru hluthafar Saga Capital Fjárfestingarbanka 93 að tölu. Í samræmi við stefnu bankans koma þeir úr flestum sviðum íslensks atvinnulífs með fjölbreytta þekkingu og ólíkan bakgrunn. Á undanförnum mánuðum hefur það verið bankanum gríðarlegur styrkur að búa við traust eignarhald og þéttan hluthafahóp, segir í fréttatilkynningunni.

Þorvaldur Lúðvík er stærsti hluthafinn með 11,4%, næst á eftir kemur Standhóll og Sundagarðar með 10,3% hvor, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins.