Saga Capital verður aðili að Nordic Exchange á Íslandi frá og með 30. apríl, og þar með fyrsti aðilinn sem hefur viðskipti á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði Nordic Exchange á Íslandi eftir sameininguna við OMX þann 2. apríl samkvæmt tilkynningu.

?Okkur er mikil ánægja að bjóða Saga Capital velkomið í hóp aðila að Nordic Exchange á Íslandi. Með aðild sinni að íslenska verðbréfamarkaðnum gefst Saga Capital kostur á að byggja stefnu sína á þeim fjölbreyttu fjárfestingarkostum sem Nordic Exchange býður upp á og fer stöðugt fjölgandi. Saga Capital er alveg nýr þátttakandi á norrænum fjármálamarkaði og við væntum þess að innan tíðar muni bankinn útvíkka aðild sína þannig að hún nái einnig til allra hinna OMX markaðanna,? segir Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi í tilkynningunni.

Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem starfar á afmörkuðum sviðum fjármála og veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar. Bankinn tekur jafnframt virkan þátt á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum með fjárfestingum fyrir eigin reikning. Saga Capital er hlutafélag og var stofnað árið 2006 af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum íslensku viðskiptabankanna og völdum fagfjárfestum. Félagið hefur það að markmiði að verða viðurkennt afl á íslenskum fjármálamarkaði innan þriggja ára og taka þátt í frekari framþróun íslensks viðskiptalífs. Saga Capital stefnir að skráningu hlutabréfa félagsins á verðbréfamarkaði innan fimm ára.

Að Nordic Exchange standa 160 kauphallaraðilar í 13 löndum. Auðkenni Saga captial í viðskiptakerfinu er SGA. Aðild bankans að viðskiptakerfinu verður virk frá deginum í dag.