Tvær af umtöluðustu bókum fyrri hluta þessa árs voru gefnar út af Bókafélaginu Uglu, Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick, um mannlíf í lokaðasta landi heims, Norður-Kóreu, og Rosabaugur yfir Íslandi eftir Björn Bjarnason. Jakob Ásgeirsson rithöfundur setti Uglu á fót árið 2004 og hefur síðan gefið út yfir eitt hundrað bókartitla. Jakob ætlaði með útgáfunni að skapa sér fjárhagslegan grundvöll til að sinna skriftum, en reyndin hefur orðið sú að útgáfustússið hefur tekið sífellt meiri tíma og skriftirnar setið á hakanum.

Með fyrirtækið í kjallaranum heima

Jakob rekur fyrirtæki sitt í kjallaranum heima hjá sér og er óhætt að segja að öllum rekstrarkostnaði sé haldið í lágmarki. En hvað skyldi bera hæst í útgáfu Uglunnar núna fyrir jólin?

„Fyrst ber að nefna Ingibjörgu, ævisögu Ingibjargar Einarsdóttu,r eiginkonu Jóns Sigurðssonar forseta, eftir Margréti Gunnarsdóttur. Það er bók sem mun áreiðanlega vekja forvitni margra. Ugla gefur líka út þýdda ævisögu sem farið hefur sigurför um heiminn, sjálfsævisögu Keiths Richards í Rolling Stones, en hún fékk nýverið Norman Mailer-verðlaunin í Bandaríkjunum fyrir bestu ævisögu ársins. Þá gefur Ugla út þungvægt sagnfræðirit um upphaf kommúnistahreyfingar á Íslandi, Roðann í austri eftir Snorra G. Bergsson,“ segir Jakob.

Frá því Ugla endurútgaf Pollýönnu fyrir nokkrum árum hefur hún sérhæft sig í útgáfu klassískra barnabókmennta, svo sem Öddu-bókanna eftir Jennu og Hreiðar, Jólaævintýris Dickens og Heiðu sem kom út á þessu ári. Einnig gefur Ugla út veglegar samprentsbækur handa börnum.

Jakob segir að mestum tíðindum í barnabókaútgáfunni á yfirstandandi vertíð sæti þó bókin Eldum saman, íslensk matreiðslubók handa krökkum eftir Guðmund Finnbogason heimilisfræðikennara í Laugarnesskóla.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.